Ert þú að anda rétt?

Þú hefur örugglega heyrt margoft hvað öndunin sé mikilvæg, sérstaklega ef þú hefur einhverntíman farið í yoga. 

Ég var að læra líffærafræði í tengslum við pilates og yoganám og fannst svo ótrúlega áhugavert að sjá hvað þindin tengist mörgum öðrum vöðvum og líffærum.

Vissir þú til dæmis að þindin tengist hjartanu, (gollurshúsinu utan um hjartað), nýrnahettum, rifbeinum, hryggjarliðum, grindarbotninum o.fl. 

Þegar þindin er í góðu ástandi styður hún við kjarnavöðvana, hryggjarsúluna og bætir líkamsstöðu. En hvaða áhrif ætli það hafi ef hún er ekki í góðu ástandi eða öndunin er ekki rétt?

Til eru skólar sem hafa það eitt að markmiði að kenna rétta þindaröndun.
Sérfræðngar þar tala um að með því að læra rétta öndun og bæta ástand þindarinnar geti það lagað bakverki, bætt líkamsstöðu, minnkað vöðvabólgu, bætt svefninn og dregið úr kvíða svo eittvað sé nefnt. Ég ætla ekki að fullyrða að það sé rétt en það er örugglega ekki verra að hafa þetta í huga…
Anda inn í gegnum nefið – leyfa þindinni að þenja út rifbeinin og anda síðan hægt og rólega út og draga naflann inn í átt að hryggnum.