UM SÓLVEIGU RÚN
SÓLVEIG RÚN
Ég hef unnið sem flugmaður og flugstjóri frá árinu 2008. Ég bjó lengi vel erlendis, bæði sem barn og seinna í tengslum við nám og vinnu sem flugmaður. Ég ólst upp í kringum íþróttir þar sem pabbi var atvinnumaður í handbolta og stór hlut lífssins fór fram í íþróttahúsum og á handboltaleikjum.
Lífsstíllinn sem fylgir því að vinna sem flugmaður, sérstaklega hjá fyrirtækinu sem ég byrjaði hjá, var mjög óútreiknanlegur. Ég bjó mikið til á hótelum, vann oft á nóttunni og félagslífið í kringum vinnuna fór nánast einungis fram á pöbbunum. Auk þess nýtti ég oft fríin til þess að ferðast heim til Íslands og hitta fjölskyldu og vini.
Heilbrigður lífsstíll í slíkum aðstæðum er ekkert sem kemur að sjálfu sér en ef maður ætlar sér að endast vel í þessu starfi og njóta lífssins þar fyrir utan tel ég að það sé algjörlega nauðsynlegt. Ég er því búin að grufla mikið í flestöllu sem tengist heilsu í gegnum tíðina og legg mikið upp úr því að nota einungis hreinar, helst lífrænar vörur.
Ég ólst upp í boltaíþróttum en ég skráði mig (hálf skömmustuleg) í yogatíma þar sem mér blöskraði hvað ég var orðin stirð. Ég gat ekki einu sinni snert á mér tærnar.
Ég fann hversu góð áhrif yoga hafði á mig og hélt því áfram. Keppnisskapið fylgdi mér samt mikið í byrjun og ég var mikið að “keppa” við alla og sjálfa mig. Á þessum tíma var ég jú, orðin liðugri en var líka að burðast með mikla streitu bæði andlega og líkamlega. Átti frekar erfitt með svefn og var oft með miklar vöðvbólgur og eymsli í líkamanum.
Ég uppgötvaði Strala Yoga í einu stoppinu í New York og féll algjörlega fyrir því og hugmyndafræðinni. Ég fór í Strala Kennaranám til New York árið 2015 þegar það leit út fyrir að ég myndi missa vinnuna hjá Icelandair þann vetur. Uppsögnin var svo reyndar dregin til baka en ég ákvað að fara samt í námið.
Í kjölfarið fór ég að hugsa hlutina svolítið öðruvísi. Hreyfa mig meira til þess að njóta þess, fyrir, á meðan og á eftir. Taka markmiðið svolítið út úr myndinni. Ekki fókusera á hvað ég get hlaupið hratt eða langt eða lift mörgum kílóum, heldur hvernig mér líður á meðan. Njóta þess að fara út að hlaupa og reyna frekar að tengja við hvað er að virka og hvað ekki.
Óafvitandi varð þetta byrjun að miklum breytingum og bættum lífsgæðum hjá mér að svo mörgu leiti. Ég nýti mér Strala Yoga hugmyndafræðina í öllu sem ég geri í lífinu, hvort sem það er hreyfing, barneignir, móðurhlutverkið eða að fljúga flugvél og taka erfiðar ákvarðanir.
En það er ekki nóg að vita þetta, heldur þarf ég að minna mig á þetta daglega og að stunda Strala Yoga er stór partur af því. Af því að How you move is how you are!
Á þessari síðu og þeim vettvangi sem henni tengist, langar mig að deila minni túlkun á þessari hugmyndafræði og öðru sem getur vonandi glatt, vakið innblástur og nýjar hugmyndir.